Wednesday, April 20, 2011

Dagur 11 - 13.04.11

Stóri dagurinn sem við höfum beðið eftir. Ég vaknaði klukkan 7 til þess að taka sótthreinsisturtu. Eftir smá bið var mér trillað í rúminu frá stofunni minni og báðum við um að fara fram hjá stofunni hans Daníels svo við gætum kvatt hvort annað í gegnum glerið en ég mátti ekki fara inn til hans og hann ekki til mín þennan morgunn. Ég fékk morfíntöflu og eitthvað annað áður en ég fór í undirbúningsherbergið en þar fékk ég vökva í æð og sett á mig hárnet. Ótrúlegt að það sé komið að þessari stundu, fannst allt í einu tíminn hafa liðið svo hratt. Mér var síðan trillað inn á skurðstofuna þar sem ég fékk verkjalyf í æð og svo sprautu sem svæfði mig á innan við mínútu.

Ég vaknaði í "uppvakninga" herberginu þegar einhver vakti mig og var að tékka á því hvort ég væri nú ekki alveg í lagi eftir svæfinguna. Mamma kom til mín einhverju seinna og sagði mér að það væri komið fram yfir hádegi. Fékk strax áhyggjur af því að ég væri búin að missa af því þegar Daníel fengi beinmerginn en það var ég víst ekki. Ég reyndi stuttu seinna að fara á klóstið en það tókst ekki sökum svima, verkja og ógleði og fékk strax einhver lyf við ógleðinni. Ég var loksins orðin nógu góð til að fara upp í herbergið mitt þegar klukkan var um þrjúleytið og var nokkuð svekkt að vera svona lengi að jafna mig.

Þegar komið var upp í herbergi var ég var spurð að því hvort ég hefði verið að æfa undanfarið því það var svo erfitt að fara í gegnum beinið á mér til að ná í merginn. Læknarnir voru víst að djóka með það á skurðstofunni að þeir væru búnir með workout dagsins því þetta hefði tekið svo á, en þeir voru tveir sem skiptust á að ná í merginn.

Ég var mun slappari eftir aðgerðina en ég bjóst við en ein ástæðan er sú að þeir tóku næstum tvöfalt meiri merg en áætlað var. Átti að taka um líter en þeir tóku 1,9 lítra af merg sem er óvenju mikið. Þeir taka víst eins mikið og hægt er en ég var með mikið í mjaðmabeininu og þeir töldu að ég mætti við því að missa svona mikið. Þeir gáfu mér blóðið mitt til baka í aðgerðinni en það dugði skammt fyrir því sem ég missti. Fór úr 120 í hemóglóbíni niður í 85 í aðgerðinni þrátt fyrir að hafa fengið blóðið mitt til baka. Ég var víst með góðan merg líka því það var fullt af frumunum sem þarf fyrir Daníel.

Hér er ég nýkomin á stofuna mína alveg búin á því og jafn föl og lakið.

Svíþjóð 5 043

Það var greinilega vel fylgst með blóðstatusnum mínum því ég vaknaði með nokkrar stungur á puttanum.

Svíþjóð 5 044

Það var ekki hægt að trilla rúminu mínu inn til Daníels og ég treysti mér ekki strax framúr svo ég missti af því þegar Daníel byrjaði að fá merginn minn. Það var því vel skjalfest með myndum og myndböndum.

Hér er mergurinn minn sem Daníel fékk. Þetta er reyndar ekki nema rúmur 1,1 líter en hluti mergsins er hreinsaður frá og annar hluti er geymdur til seinni tíma ef á þarf að halda. Í pokanum sem Daníel fær eru stofnfrumur og alls konara aðrar frumur en í því sem er geymt eru aðeins stofnfrumur, ætli þær geymist ekki lengur heldur en allt gumsið saman.

Svíþjóð 5 050

Svíþjóð 5 056

Það var fylgst vel með Daníel þá klukkutíma sem hann var að fá merginn. Tekinn var blóðþrýstingur og hitastig á korters fresti. Hér er verið að mæla rennslið á blóðinu hans sem var nokkrum sinnum gert.

Svíþjóð 5 051

Svíþjóð 5 061

Ég treysti mér loksins um kvöldmatarleytið til að láta trilla mér í hjólastól inn til Daníels. Hér erum við saman, hann að fá poka nr. 2 af merg og strax kominn með roða í kinnar á meðan ég er enn fölari heldur en ég á að mér að vera.

Svíþjóð 5 068

Ég gat nú ekki stoppað lengi því stuttu seinna ældi ég og var mér strax komið fyrir í minni stofu þar sem dælt var í mig lyfjum og vökvum.

Það tók Daníel um 7 klukkutíma að fá merginn enda þarf að láta hann drippa hægt eða 1 dropa á sekúndu. Þó hann líti út eins og blóð á mynd þá er hann þykkari heldur en blóðið sem Daníel hefur verið að fá.

Daníel var bara nokkuð hress og fékk strax smá matarlyst þegar hann fékk merginn. Ég gat hins vegar bara borðað hálfa brauðsneið allan daginn, kannski mér hafi tekist að flytja einhverja matarlyst á milli :)

Núna er Daníel búinn að eignast annan afmælisdag. Eftir þetta þarf hann að fara í allar ungbarnasprauturnar aftur og getur fengið hlaupabóluna aftur og svona. Núna get ég fyrir alvöru sagt að ég eigi smá í Daníel og tel mig því hálfmömmu hans :)

6 comments:

erla margrét said...

æ hvað það er gott að sjá að allt gekk vel hjá ykkur. þið eruð hörkudugleg bæði tvö og ótrúlegt að sjá hvað þið eruð alltaf brosmild. ps. Lísa þú hefur nú yfirleitt verið frekar hvít svo þetta er nú ekki svo slæmt híhí..... :Þ knús á ykkur öll :D

Hafrún Ósk said...

Gaman að lesa og gott að sjá myndir af ykkur... þú lítur nú bara vel út Lísa þó þú sért þreytuleg... alltaf sæt :)

Gangi ykkur áfram vel :)
kveðja
Hafrún Ósk

Lísa said...

Takk stelpur :)

Erla: Hehe mikið rétt hef alltaf verið föl en þarna sló ég öll met :)

Guðrún Helga said...

Elskan mín ég þekki þetta með að vera föl og 85 í heimóglobin hjálpar ekki til :)

Alveg magnað að sjá myndina af mergnum þínum - lífgjöfinni :)

*Alltaf gaman að eiga nokkra afmælisdaga Daníel ;) tíhí*

Knús til ykkar allra, erum ávallt með hugann hjá ykkur!

Guðrún Frænka

Freydís said...

Gott að heyra að þið systkinin eruð að braggast, takk fyrir að leyfa okkur að fylgjast með og Lísa núna þarftu bara að kenna mömmu þinni að halda áfram ;)
kveðja og knús á ykkur öll frá okkur í Austurfoldinni

Anonymous said...

Bestu kvedjur um godan bata kv.maggi