Sunday, April 24, 2011

Dagar 12 og 13 - 14.04.11 og 15.04.11

Daníel er búinn að vera mjög hress eftir skiptin og með rauðar kinnar og allt. Hann fékk einn skammt af krabbameinslyfjum en hann fær þau í fjögur skipti eftir nýja merginn. Það er til þess að koma í veg fyrir að minn mergur fari sér ekki að voða í nýja umhverfinu.

Ein hjúkkan kom inn með snakk, kex, saltstangir og gos til Daníels og sagði að það væri "party time".

Svíþjóð 5 071

Það eru allir alveg rosalega fínir hérna á Cast deildinni. Hér á deildinni vinna tvær íslenskar og það er stundum þægilegt að fá útskýringar á íslensku þó svo tjáskiptin ganga oftast vel fyrir sig. Ein sænska hjúkkan talar ekki ensku en þrátt fyrir það höfum við alveg náð að halda tjáskiptum gangandi með okkar svakalega góðu sænsku.

Daginn eftir skiptin komu Hrönn (konan hans pabba) og Anna (hálfsystir mín og Daníels) í heimsókn en þær verða hjá okkur í tvær vikur.

Svíþjóð 5 076

Ég var ekki alveg sátt með hversu slöpp ég var eftir skiptin. Var búið að segja við mig að ég gæti farið á Ronald samdægurs en ég þurfti að gista á spítalanum í tvær nætur á eftir. Daginn eftir skiptin gat ég rétt svo labbað ganginn fram og til baka og tveimur dögum seinna náði ég að fara í sturtu en þurfti að leggjast áður en ég náði að þurrka mér. Er á einhverjum svaka verkjatöflum sem mér finnst gera voða lítið fyrir verkina. Var líka óglatt af öllu saman en blóðleysið, sterku járntöflurnar og verkjalyfin geta orsakað það. Ég þarf að taka tvær sterkar járntöflur á dag í mánuð og svo minnka það niður í eina en ég mun þurfa nokkrar vikur í að vinna upp blóðmissinn og má þar af leiðandi ekki fara í ræktina fyrr en eftir einhverjar vikur.

No comments: