Saturday, April 30, 2011

Dagur 25 - 27.04.11

Í gær var morfín skammturinn minnkaður og í kvöld var það alveg aftengt en hann var með morfín stanslaust í æð. Vorum líka komin með þá kenningu að vanlíðanin á kvöldin væri vegna þessa, vonandi lagast það. Síðustu daga hafa hvítu blóðkornin ekki mælst í blóðinu sem er eðlilegt miðað við ferlið. Í morgun voru góðar fréttir því hvítu mældust 0,1 sem þýðir að mínar frumur eru farnar að fjölga sér (eðlilegt er að vera með í kringum 5). Fyrsta verk þeirra þegar þær komu í líkamann var að lagfæra það sem var ekki í lagi, t.d. laga óþægindin og sárin í munninum og síðan byrja þær að fjölga sér. Sárin eru líka orðin mun skárri heldur en þau voru. Þegar hvítu hafa mælst 0,2 í tvo daga í röð að þá má hann fara út úr einangrun. Ótrúlegt að hugsa til þess að mínar frumur geti bara skipt um líkama og byrjað að vinna vinnuna sína. Hann er með mitt DNA í beinmergnum og líklegast með mín ofnæmi í staðinn fyrir sín.

Í dag fékk hann blóðnasir sem stóð í 3 tíma, enda eiga þessar fáu blóðflögur sem hann er með í fullu fangi með að loka fyrir blæðinguna. Hann fékk samt flögupoka í dag því flögurnar voru komnar undir 10. Til viðmiðunar þá var er normal lágmark 150 og ég var með um 268 fyrir aðgerðina, þær eru því nokkuð fáar hjá honum.

P4270008

Í dag kvaddi ég Svíþjóð í bili. Ég þarf víst að sinna skólanum en hann hefur ekki fengið neina athygli undanfarið. Ég mun samt sem áður halda áfram með bloggið því ég verð eflaust með fréttirnar í beinni. Það var ótrúlega erfitt að fara heim og Daníel, mamma og pabbi ennþá úti. Það er öðruvísi að vera úti í miðju hringiðunni heldur en að vera heima sem áhorfandi á netinu.

Hrönn og Anna fóru heim um leið og ég. Hér erum við á flugvellinum með Ingu sem aðstoðar með ýmislegt fyrir íslensku sjúklingana og aðstandendur hérna úti.

P4270009

1 comment:

Anonymous said...

Gott að fá að fylgjast með hér á blogginu, farið nú vel með ykkur! :*

kv,
Auður, Unnar og Ugla