Hér er Daníel fyrir utan uppvakningadeildina. En maður er uppvakningur eftir svæfingar í Svíþjóð.

Pabbi kvaddi Svíþjóð í nokkrar vikur en maðurinn hennar mömmu (Jan) fór út í staðinn. Hér er Daníel að kveðja pabba á flugvellinum.

Svona var hann keyrður um spítalann í eitt skiptið í þessum svaka fína hjólastól.

Um þetta leyti var sonduslangan tekin úr honum og settur tappi í gatið í staðinn. Einni slöngunni færri hangandi utaná. Verra var að eftir þetta var honum stanslaust flökurt og nokkur uppköst fylgdu með sem og hann gat ekkert borðað í nokkra daga. Ástæðan var sú að sondan var of neðarlega í maganum og á endanum þurfti að taka hana alveg.
Stundum er eitt viðhald ekki nóg :)

En það er alltaf hægt að fíflast smá :)

Þrátt fyrir ógleðina var hægt að grípa smá í borðtennis en ælupokinn var ekki langt undan.

Pínu þreyttur eftir ógleðisdagana.

Í garðinum á Rónald.

Einn daginn var grillað fyrir utan spítalann og einhverjir frægir íþrótta Svíar komu í heimsókn :S ...ég veit ekki meir, og spurði ekki nánar út í það.

Hann má auðvitað ekki vera í sól svo það er vörn 50, síðerma bolur, síðbuxur, hetta, derhúfa og sólhlíf.
°


Jan fór aftur til Íslands 9.júní og þá fór ég, pabbi, Hrönn og Anna María út til Svíþjóðar. Þá voru þau búin að flytja sig um stað og búin að vera í hótelíbúð í nokkra daga. Ákveðið var að breyta um umhverfi og fara út af Rónalds húsinu og leigja íbúð nær bænum í Stokkhólmi. Við erum eflaust orðin þekkt fyrir kvartanir á hótelinu því það var allt sem fór úrskeiðis sem gat. Ætla ekki að tíunda það nánar en pirrings stundirnar voru ófáar enda eflaust auðveldara að láta ýmislegt pirra sig þegar andlega hliðin er ekki uppá sitt besta.
Hér er Daníel og Anna að borða morgunmat úti á svölum. Hér var Daníel búinn að vera á sterum í nokkrar vikur og því orðinn smá bólginn. Aðrar aukaverkanir komu af sterunum en síðan hann byrjaði á þeim þá hefur hann ekki hætt að borða, sem er bara gott því honum veitti ekki af því.

Á þessum tímapunkti var líka allt hárið farið af, líka litlu broddarnir sem sumir héldust frekar lengi á.

Rétt áður en við komum út þá hafði mælst sýking í blóðinu hjá honum og þá þurfti að byrja á lyfjagjöf í æð tvisvar á dag. Þar sem við vorum ekki lengur á Rónald þá var lengra á sjúkrahúsið og tók hver lyfjaferð 3 klukkutíma. Svo það fóru 6 tímar á dag í skutla á spítalann og lyfjagjafir.
Ég að sjálfsögðu plantaði mér hjá honum þegar færi gafst :)

Við lágum nokkrum sinnum uppí rúmi með Ben & Jerrys....þangað til ég las á umbúðirnar hversu margar kaloríur hann innhélt...þá snarhætti ég. Hér hef ég eflaust verið að segja eitthvað til að hneyksla hann, þá sjaldan sem það gerist.

Skruppum í smá vöfflur niðri við höfn. Foreldrar Hrannar voru komin þarna en á myndinni með okkur er mamma hennar.

Nú get ég aðeins verið stóra systir á annan veginn. Löngu hætt að vera stóra systir á hinn veginn.

Af tilefni af útskriftinni minni þá fórum við fínt út að borða á stað sem heitir Fem Små Hus. Get alveg mælt með honum...geðveik hreindýrasteik.


Eftir að sondan var tekin þá greri sondusárið ekki rétt. Það þurfti því að svæfa hann einu sinni enn til að skera í sárið, loka því og sauma fyrir. Hann var því lagður inn fyrir það 15.júní.
Pabbi var eitthvað að reyna að hræða hann áður en hann fór inn á skurðstofuna. Gott að hafa léttleikann með í ferlinu :)

Hann fékk að fara heim sama dag því þetta var bara létt svæfing.
Hér erum við öll saman á 17.júní að borða góða mat.

18.júní þurfti enn og aftur að leggja hann inn af því að það var komin ígerð í sárið sem þeir lokuðu. Það þurfti því að taka saumana og hafa sárið opið. Ég set ekki mynd af því hérna inn en get alveg sagt að það var ekki fallegt.
Hann fékk heimsendingu með íslensku lambalæri á spítalann, ekki amarlegt það.

Þar sem þetta var síðasta nóttin mín þá gisti ég með honum á spítalanum.

Hann fékk að fara heim af spítalanum daginn sem ég fór en þurfti að fara aftur til baka um kvöldið og gista. Hann kom því með mér og mömmu, við borðuðum saman og þau skutluðu mér útá völl. Verð að segja það að það var ansi erfitt að kveðja.

Hann gisti í nokkra daga á spítalanum enda með opið sár með ígerð og á tveimur sýklalyfjum. Eftir þessa nokkra daga fékk hann sýklalyfin í töfluformi og þurfti bara að skreppa uppá spítalann daglega til að láta skipta um á sárinu.

Hér er verið að blanda lyfjakokteilinn fyrir daginn en það þarf að passa vel uppá það að hann fái rétt lyf á réttum tíma í réttu magni. En magnið getur breyst reglulega en þeir endurmeta magnið eftir hverja blóðprufu sem er tvisvar í viku.

Hér skruppu þau í smá dýragarð.


26.júní fóru Hrönn og Anna heim.

Eftir að þær fóru heim þá fluttu Daníel, mamma og pabbi aftur á Rónald. Þegar þau voru flutt þangað þá var Daníel sendur í tékk á öðrum spítala sem sérhæfir sig í skurðsárum....en sá spítali var rétt hjá hótelíbúðunum, týpískt.
Daníel í Gamla Stan.

Hér er hann í garðinum hjá Rónald.

Það er ekki úr vegi að enda bloggfærsluna á gleðifréttum. Daníel kom heim í dag 5.júlí :):):)
Hann fer hér reglulega í tékk þangað til eftir þrjá mánuði en þá fer hann aftur út í eftirlit.